Skoðun

Sókn fyrir velferðina

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Í fjármálaáætlun til næstu fimm ára eru lagðar línur um hvernig á að afla tekna og hvernig á að ráðstafa fjármunum hins opinbera. Í þeirri umræðu er mikilvægt að hafa í huga að ríkissjóður er ekki einungis efnahagsreikningur sem þarf að stemma af. Hann á að standa undir því samfélagi sem við viljum byggja. Það skiptir máli hvernig við fjármögnum þennan sama ríkissjóð og í hvaða verkefni hann er nýttur.

Á Íslandi eiga ríkustu tíu prósentin um 70% alls auðs. Ríkustu tuttugu prósentin eiga um 90% alls auðs á landinu. Stjórnvöldum ber skylda að takast á við þessa ójafnaðarþróun, tryggja aukinn jöfnuð og fjármögnun nauðsynlegra samfélagslegra verkefna sem snúast bæði um jöfnuð og velferð.

Það er þörf á að því að efla hið opinbera heilbrigðiskerfi og menntakerfi; einnig þarf að bæta kjör öryrkja og aldraðra og byggja upp margs konar innviði, t.d. samgöngur og ferðamannastaði. Til þess að gera þetta þarf að afla tekna með réttlátum hætti sem er þvert á þessa öfgakenndu þróun í átt til ójafnaðar. Því miður hefur þróun skattbyrðinnar verið öfug á síðustu árum þar sem skattbyrðin á þá tekjuhæstu hefur minnkað en þyngst á aðra hópa.

Ný fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur ekki undir þeim væntingum sem gefnar voru fyrir kosningar. Í henni er skattlagningu stillt upp sem andstæðu frelsis og flúið frá loforðum á ólíkum málefnasviðum. Þar má nefna stefnumótun Vísinda- og tækniráðs um framlög til háskóla, áætlanir um að efla framhaldsskólana þrátt fyrir styttingu, samgönguáætlun og samþykkt þingsins um uppbyggingu Náttúruminjasafns. Ekki er heldur komið til móts við áskorun meira en 86 þúsund Íslendinga um að framlög til heilbrigðismála verði aukin sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Allar þessar ákvarðanir eru rammpólitískar og snúast um hvernig samfélag við viljum byggja og hvernig sú uppbygging er fjármögnuð. Þar er stefna okkar Vinstri-grænna alveg skýr og sú sama nú og fyrir kosningar: Tekjustofna ríkisins má styrkja með réttlátum hætti og hefja sókn til raunverulegrar uppbyggingar samfélagsins. Slík sókn er nauðsynleg fyrir íslenskt samfélag en í hana verður ekki ráðist undir forystu þessarar ríkisstjórnar.




Skoðun

Sjá meira


×