Erlent

Kínverjar vara Norður-Kóreu við frekari tilraunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, líklega að benda hershöfðingjum á eitthvað sem mætti betur fara.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, líklega að benda hershöfðingjum á eitthvað sem mætti betur fara. Vísir/AFP
Stjórnvöld Kína hafa varað stjórnendur Norður-Kóreu við því að framkvæma frekari kjarnorkuvopnatilraunir. Ef það yrði gert myndu Kínverjar beita einræðisríkið viðskiptaþvingunum. Samkvæmt Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynntu Kínverjar stjórnvöldum Bandaríkjanna þetta fyrir skömmu.

Hann sagði ekki hvenær Kínverjar vöruðu Norður-Kóreu við og stjórnvöld í Kína hafa ekki staðfest orð ráðherrans, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Það er þó ljóst að bæði afmælishátíðir Norður-Kóreu og hers ríkisins fóru fram án þeirra vopnatilrauna sem Bandaríkin og Suður-Kórea höfðu varað við.

Nú í febrúar bönnuðu yfirvöld í Peking innflutning kola frá Norður-Kóreu, sem hefur lengi verið ein helsta tekjulind einræðisríkisins. Þá hafa opinberir fjölmiðlar Kína velt upp þeim möguleika að undanförnu að stöðva sölu olíu til Norður-Kóreu ef ögranir þeirra halda áfram.

Þá sagði Tillerson að markmið ríkisstjórnar Bandaríkjanna væri ekki að fella ríkisstjórnina í Norður-Kóreu. Það væri eingöngu að koma í veg fyrir frekari vopnatilraunir og stöðva kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins.

Viðtal Fox við Tillerson.

Tengdar fréttir

Bandaríkin og Kína ræða möguleg viðbrögð vegna Norður-Kóreu

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Donalds Trump, segir að yfirvöld í Kína og Bandaríkjunum séu sammála um að ástandið á Kóreuskaga geti ekki haldið áfram óbreytt. Hann segir löndin vera að ræða ýmsa möguleika um hvernig bregðast megi við eldflauga og kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×