Erlent

Vinsældir Jeremy Corbyn aukast á kostnað Theresu May

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jeremy Corbyn saxar á forskot May.
Jeremy Corbyn saxar á forskot May. Nordicphotos/AFP
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, hefur aukið vinsældir sínar til muna á kostnað Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins ef má marka má skoðanakönnun Observer sem Guardian greinir frá.

Meira en þriðjungur kjósenda eða 37 prósent sögðu að skoðun þeirra á forsætisráðherranum væri neikvæðari heldur en hún hefði verið í upphafi kosningabaráttunnar gegn 25 prósentum sem sögðu skoðun sína nú jákvæðari.

Hins vegar sögðu 39 prósent kjósenda að skoðun þeirra á Corbyn væri jákvæðari nú heldur en í upphafi gegn 14 prósentum sem sögðu að þeir væru neikvæðari í garð leiðtogans. Því er ljóst að vinsældir Corbyn hafa aukist en í upphafi kosningabaráttunnar sögðust 56 prósent kjósenda frekar treysta May sem forsætisráðherra heldur en Corbyn.

Íhaldsflokkurinn nýtur enn mest fylgis í skoðanakönnunum með rúmlega 45 prósenta fylgi en Verkamannaflokkurinn hefur að undanförnu sótt í sig veðrið og mælist nú með 35 prósenta fylgi. Munurinn á fylgi flokkanna hefur því ekki gert annað en að minnka síðan kosningabaráttan hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×