Logi Ólafsson stýrir Víkingum í fyrsta sinn í tæp 25 ár í dag þegar Víkingur Reykjavík heimsækir KA í fimmtu umferð Pepsi-deildar karla.
Leikurinn er opnunarleikur fimmtu umferðarinnar og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 14.00 í dag.
Logi tók við Víkingsliðinu í vikunni en þar fékk hann einmitt sitt fyrsta tækifæri sem þjálfari meistaraflokks karla frá 1990 til 1992.
Logi Ólafsson stýrði Víkingsliðinu síðast sumarið 1992 þegar liðið endaði í sjöunda sæti og rétt slapp við fall.
Víkingar björguðu sér þá með 3-1 sigur á Blikum í lokaumferðinni. Markvörður Blika í síðasta leik Loga með Víkinga var einmitt Hajrudin Cardaklija, sem er annar aðstoðarmanna hans í dag.
Það að Logi skuli byrja á móti Akureyrarliðið beinir sjónum að leikjum Víkinga við Akureyrarliðin Þór og KA á þessu sumri fyrir 25 árum síðan.
Víkingarnir hans Loga voru nefnilega í miklum vandræðum með Akureyrarliðin í Samskipadeildinni sumarið 1992.
KA endaði í neðsta sæti þetta sumar en tveir af þremur sigurleikjum liðsins komu einmitt á móti lærsveinum Loga í Víkingsliðinu. Uppskera Víkinga á móti Akureyrarliðunum sumarið 1992 voru 0 stig í 4 leikjum. Víkingar voru aftur á móti með 5 sigra og 5 töp á móti hinum liðunum í deildinni þetta sumar.
Hér fyrir neðan má sjá svart á hvítu þessi miklu vandræði Víkinga með norðanliðin þegar Logi réði síðast ríkjum í Víkinni fyrir aldarfjórðungi síðan.
Leikir Víkinga við Akureyrarliðin sumarið 1992:
Víkin, 24. maí 1992 (1. umferð)
Víkingur - KA 0-2
Akureyrarvöllur, 20. júní 1992 (5. umferð)
Þór - Víkingur 3-0
Akureyrarvöllur, 17. júlí 1992 (10. umferð)
KA - Víkingur 1-0
Víkin, 16. ágúst 1992 (14. umferð)
Víkingur - Þór 1-4
Samanlagt hjá Víkingi á móti Akureyrarliðunum í Samskipadeildinni 1992:
4 leikir
0 sigrar
4 töp
1 mark skorað (Helgi Sigurðsson úr víti)
10 mörk fengin á sig
