Golf

Ólafía fékk frábæran örn á lokaholunni og er örugg í gegnum niðurskurðinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Vísir/Getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék annan hringinn á LPGA Volvik meistaramótinu á einu höggi undir pari og er komin í gegnum niðurskurðinn en mótið fer fram á Ann Arbor vellinum við Detroit.

Ólafía er eins og er í 30. sætinu á Volvik -mótinu en hún lék fyrsta hringinn á -3 og annan hringinn á –1.  Þessi flotta spilamennska skilar henni örugglega í gegnum niðurskurðinn á mótinu og mun okkar kona því spila bæði á laugardag og sunnudag.

Ólafía Þórunn byrjaði annan hringinn vel og var með þrjá fugla á fyrri níu holunum sem skilaði henni fimm höggum undir pari í heildina. Sú staða hefði skilað henni örugglega í gegnum niðurskurðinn en svo fór aðeins að halla að fæti.

Ólafía spilaði seinni níu holurnar fyrst á þessum hring og það gekk ekki eins vel hjá henni á holum tvö til fjögur.  

Ólafía lenti nefnilega í mjög erfiðum kafla þegar hún fékk þrjá skolla í röð. Ólafía tapaði þá höggi á annarri, þriðju og fjórðu holu vallarins.

Ólafía Þórunn náði að halda haus, lék næstu fjórar holur á parinu og endaði svo með því að fá örn á lokaholunni. Ólafía lék þá par fjögur holu á tveimur höggum.  Magnaður endir og Ólafía sýndi mikinn andlegan styrk með því að halda sínu striki þrátt fyrir skollaþrennuna.

Ólafía er því á fjórum höggum undir pari eftir fyrstu 36 holurnar á mótinu sem er frábær frammistaða og mikið gleðiefni fyrir okkar konur sem hefur ekki verið að komast í gegnum niðurskurðinn á síðustu mótum.



 


Tengdar fréttir

Afleitur hringur Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fann sig ekki á þriðja degi Volunteers of America Texas Shootout mótsins í golfi sem fer fram á Las Colinas vellinum í Texas.

Ólafía Þórunn úr leik

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er úr leik á Kingsmill Championship mótinu sem fer fram í Williamsburg í Virginíu. Mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni í golfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×