Erlent

Dennis Rodman á leiðinni til Norður-Kóreu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dennis Rodman.
Dennis Rodman. vísir/getty
Körfuboltastjarnan Dennis Rodman er á leiðinni til Norður-Kóreu og er búist við því að hann lendi þar á morgun, þriðjudag. Greint er frá þessu á vef CNN en þar segir að fréttamenn miðilsins hafi rekist á Rodman á flugvellinum í Beijing. Rodman vildi hins vegar ekki svara neinum spurningum blaðamanna.

CNN spurðist þá fyrir um heimsókn Rodman hjá embættismönnum í Pyongyang og fengust þá þau svör að körfuboltamaðurinn fyrrverandi væri væntanlegur þangað á morgun.

Rodman hefur heimsótt Norður-Kóreu að minnsta kosti fjórum sinnum áður en þar af voru þrjár af ferðum hans á árunum 2013 og 2014. Hann er einn af fáum Bandaríkjamönnum sem hitt hafa einræðisherra landsins, Kim Jong Un.

Ekki er vitað hvert er tilefni heimsóknar Rodman núna en síðasta heimsóknin hans var í janúar 2014. Þá fór hann til Norður-Kóreu ásamt nokkrum öðrum fyrrverandi leikmönnum úr NBA-deildinni og léku þeir nokkurs konar sýningar-körfuboltaleik sem sagður var vera afmælisgjöf til Kim Jong Un. Rodman hefur varið ferðir sínar til Norður-Kóreu og sagst vera þar í erindrekstri fyrir körfuboltann.

Eins og þekkt er er Norður-Kórea afar einangruð, bæði í efnahagslegu og pólitísku tilliti, auk þess sem stjórnvöld þar í landi hafa brotið á mannréttindum þegna sinna í áraraðir. Rodman virðist þó ekki láta það á sig fá en hann lék meðal annars með Chicago Bulls, San Antonio Spurs og Detroit Pistons í NBA á 10. áratugnum. 


Tengdar fréttir

Prófun á eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna heppnaðist

Höfuðstöðvar Bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Pentagon, hafa skotið niður tilraunasprengihleðslu sína yfir Kyrrahafinu. Með þessari tilraun hefur lykiltakmarki í þróun á eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna verið náð.

Norður-Kóreumenn gagnrýna Trump vegna Parísarsamkomulagsins

"Þetta er hámark sjálfselskunnar og siðferðislegs tómarúms sem sækist aðeins eftir eigin velferð á kostnað allrar plánetunnar,“ segir utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu um að Donald Trump hafi ákveðið að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×