Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, heldur áfram leik á öðrum hring Thornberry Creek Classic mótinu um eitt leitið í dag.
Mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni og var Ólafía Þórunn í 49.-61. sæti þegar keppni var hætt í gær.
Fyrr um daginn hafði þurft að gera hlé á keppni vegna veðurs. Þá hafði Ólafía aðeins leikið sex holur og náði hún aðeins að klára 12 holur í heildina þegar keppi var hætt í gærkvöldi.
Ólafía Þórunn kláraði fyrsta hringinn á fjórum höggum undir pari og lék hún allar holurnar í gær á pari. Hún er því ennþá á fjórum höggum undir pari.
Eins og staðan er núna nægir að leika á þremur höggum undir pari vallarins til að komast í gegnum niðurskurðinn. Það má því ekki mikið fara úrskeiðis hjá Ólafíu í dag ætli hún að ná að hefja leik á þriðja hring seinni partinn í dag.
