Garðar Gunnlaugsson, leikmaður ÍA, fékk fast spark í punginn þegar Skagamenn töpuðu fyrir Leikni í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins síðastliðinn mánudag. Þrátt fyrir mikinn sársauka kláraði Garðar leikinn en að leik loknum fór hann að hafa áhyggjur.
„Þar sem ég fann ekki vinstra eistað á mér strax ákvað ég að setja kælingu á þetta. Daginn eftir var þetta mjög sársaukafullt og bólgið. Þá ákvað ég að leita upp á spítala,“ segir Garðar í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Ég var sendur beint suður af læknunum uppi á Skaga. Ég var ómskoðaður og þar sást að eistað var rofið. Svo var ég sendur bara beint í aðgerð.“
„Þeir skáru á punginn og hreinsuðu burt allt blóðið sem var þar. Það var mikil blæðing í kringum eistað. Það var klofið þannig það var saumað saman og sett dren í punginn og saumað fyrir,“ segir Garðar.
En hefur þetta engin áhrif á starfsemina? „Við skulum vona ekki. Ég á nú alveg nóg af börnum þannig að þetta er ágætt. Mér var samt sagt að þetta ætti að vera í lagi,“ segir Garðar Gunnlaugsson.
Alla fréttina má sjá í spilaranum hér að ofan.
Garðar um pungsparkið: „Ég á nóg af börnum“
Tengdar fréttir

Garðar Gunnlaugsson í aðgerð á pung: Vinstra eistað rofnaði í Breiðholtinu
Framerji Skagamanna fékk högg á helgasta staðinn í bikarleik á móti Leikni.