Íslenski boltinn

Fyrirliði KR hættir á miðju tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Indriði Sigurðsson.
Indriði Sigurðsson. Vísir/Stefán
Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna núna. Hann hefur glímt við meiðsli í allt sumar og er ákvörðunin samkvæmt ráðleggingum lækna og sjúkraþjálfara.

Þetta kemur fram á heimasíðu KR þar sem lesa má yfirlýsingu um málið.

Indriði er 35 ára gamall og var á sínu öðru ári í Vesturbænum eftir að hafa komið heim úr atvinnumennsku.

Indriði var ekki búinn að vera með í fimm síðustu leikjum KR í Pepsi-deildinni en síðasti leikur hans með liðinu var á móti ÍBV í Vestmannaeyjum 15. júní síðastliðinn. Indriði náði aðeins að spila sjö leiki á þessu tímabili.

Indriði varð tvöfaldur meistari með KR árið 1999 og hélt í framhaldinu út í atvinnumennsku.  Hann snéri aftur til uppeldisfélagsins að loknum glæstum atvinnumannaferli fyrir keppnistímabilið í fyrra.

Indriði lék með Lilleström, Lyn og Vikingi í Noregi auk þess að spila í þrjú ár með KRC Genk í Belgíu.

„Knattspyrnudeild KR þakkar Indriða fyrir framlag hans inná knattspyrnuvellinum en mun engu að síður áfram njóta starfskrafta hans út þetta keppnistímabil, hið minnsta.,“ segir í fréttinni á heimasíðu KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×