Innlent

Geta skotið langdrægum eldflaugum á næsta ári

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Norður-Kórea getur skotið áreiðanlegum og langdrægum eldflaugum vopnuðum kjarnorkuvopnum á næsta ári. Þetta er niðurstaða greiningar bandarískra hernaðaryfirvalda, en áður var talið að Norður-Kórea gæti ekki gert kjarnorkuárásir á meginland Bandaríkjanna fyrr en í fyrsta lagi árið 2020.

Samkvæmt frétt Washington Post er niðurstaða DIA, sem er nokkurs konar leyniþjónusta hernaðaryfirvalda, mjög lík niðurstöðu leyniþjónustu Suður-Kóreu. Tilefni greiningarinnar er nýlegt tilraunaskot Norður-Kóreu með langdræga eldflaug. Eldflaugin sem skotið var á loft þann 4. júlí hefði mögulega drifið til Alaska.



Þrátt fyrir að tilraunin er talin hafa misheppnast sýnir hún þó mikla framför í eldflaugaþróun einræðisríkisins.

Talið er líklegt að annað tilraunaskot verði framkvæmt á næstu dögum en Norður-Kórea á eftir að þróa eldflaug sem getur borið kjarnorkuvopn aftur inn í gufuhvolfið án þess að skemma það. Einnig þarf að framleiða smáar kjarnorkusprengjur sem geta þolað mikinn hita og titring.

Norður-Kóreumenn hafa haldið fram að þeim hafi tekist að þróa slíkt vopn, en sérfræðingar draga það verulega í efa.

Einnig er talið að undirbúningur fyrir sprengingu kjarnorkuvopns í tilraunaskyni hafi staðið yfir undanfarna mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×