Ákvörðun hefur verið tekin um að gera höfuðvörn að skyldubúnaði í Formúlu 1 á næsta ári. Hin svokallaða geislabaugs-vörn hefur orðið fyrir valinu.
Tveir valkostir voru helst í stöðunni og hefur gegnsæi skjöldurinn þurft að lúta í lægra haldi fyrir geislabaugnum. Sebastian Vettel prófaði skjöldinn á Silverstone brautinni um síðustu helgi. Hann sagði að sig hefði farið að svima fljótlega.
Fregnir herma að níu af tíu liðum hafi kosið gegn því að setja höfuðvörn á bílana. FIA mun samt gera slíkt að skyldubúnaði á næsta ári.
Alþjóða akstursíþrótta þingið mun þó að endingu hafa lokaorðið um hvort raunverulega verður sett höfuðvörn á bílana.
Miðað við afstöðu FIA og áhersluna á aukið öryggi þrátt fyrir aukin hraða þá verður að telja líklegt að þingið samþykki reglurnar.
