Magnús Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar ÍA, segir að Gunnlaugur Jónsson, þjálfari liðsins, hafi traust stjórnar eins og staðan sé núna.
ÍA steinlá fyrir Val, 6-0, í 13. umferð Pepsi-deildar karla í gærkvöldi.Þetta var stærsta tap ÍA í deildakeppni í sögu félagsins. Skagamenn hafa núna tapað þremur leikjum í röð með markatölunni 0-9.
„Hann hefur fullt traust stjórnar eins og staðan er núna en við munum funda í stjórninni og fara yfir málin,“ sagði Magnús í samtali við Vísi í morgun. Að hans sögn mun stjórn knattspyrnudeildar funda seinni partinn í dag.
ÍA situr í tólfta og neðsta sæti Pepsi-deildarinnar með níu stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Næsti leikur ÍA er gegn KR á heimavelli eftir viku.

