Chery framleiddi 700.000 bíla á síðasta ári og telst því vart lengur smár bílaframleiðandi, en til samanburðar framleiddi Fiat liðlega 1 milljón bíla á síðasta ári. Chery var stofnað fyrir 20 árum síðan og á því ekki langa sögu í samanburði við flesta aðra bílaframleiðendur heims. Chery, líkt og margur annar bílaframleiðandinn, ætlar að leggja áherslu á bíla knúna rafmagni að hluta eða öllu leiti, en ekki liggur ljóst fyrir hvort sá bíll sem sýndur verður í Frankfurt sé þannig úr garði gerður.
Mikill áhugi er hjá kínverskum bílaframleiðendum að komast á markað í Evrópu og í Bandaríkjunum og sjá þeir það sem helstu von þeirra um áframhaldandi hraðan vöxt í framleiðslu. Því má á næstu árum líklega sjá kínverska bíla í sölu í Evrópu og þá ekki bara frá Chery og gæti koma þeirra breytt nokkru um verðlag bíla, en þeir verða umtalsvert ódýrari en evrópskir bílar.

