FH-ingurinn Guðný Árnadóttir er búin að skora 33 prósent marka síns liðs í Pepsi-deild kvenna í sumar en þau hafa öll komið fyrir utan teig og öll beint úr föstum leikatriðum.
Guðný tryggði FH 1-0 sigur á Haukum í gær með þrumuskoti beint úr aukaspyrnu af um 40 metra færi.
Þetta var fjórða mark hennar á tímabilinu en hún spilar í miðri vörn FH-liðsins. Guðný er líka nýkomin á bílprófsaldurinn en hún hélt upp á sautján ára afmælið sitt fyrir nokkrum dögum.
Guðný hefur skorað þrjú mörk beint úr aukaspyrnu í Pepsi-deildinni í sumar og eitt mark beint úr hornspyrnu.
Guðný skoraði líka beint úr aukaspyrnu framhjá Tori Ornela í marki Hauka í fyrri leik liðanna en sú aukaspyrna var af um 25 metra færi.
Aukaspyrnumark Guðnýjar á móti KR kom af 18 metra færi og þá skoraði hún beint úr hornspyrnu í Grindavík.
FH-liðið hefur unnið fimm leiki í Pepsi-deildinni í sumar og Guðný hefur skorað í fjórum þeirra. Hún skoraði ekki fyrsta sigrinum á móti Fylki í maí en hefur skorað í öllum sigurleikjum Hafnarfjarðarliðsins síðan þá.
Nú verður athyglisvert hvort þrumuskot Guðnýjar haldi áfram að þenja út netmöskvanna í Pepsi-deildinni.
