Körfubolti

Gasol hvíldur í risasigri Evrópumeistaranna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Spánverjar þurftu ekki að hafa mikið fyrir hlutunum gegn Rúmenum.
Spánverjar þurftu ekki að hafa mikið fyrir hlutunum gegn Rúmenum. vísir/epa
Evrópumeistarar Spánverja áttu ekki í neinum vandræðum með að leggja Rúmena að velli, 91-50, í C-riðli EM í körfubolta í kvöld.

Spænska liðið er með sex stig á toppi riðilsins en það hefur unnið alla þrjá leiki sína á mótinu. Rúmenía hefur hins vegar ekki enn unnið leik.

Juancho Hernangomez var atkvæðamestur í spænska liðinu með 18 stig og 12 fráköst. Spánverjar gátu leyft sér að hvíla sína stærstu stjörnu, Pau Gasol, í leiknum í kvöld. Bróðir hans, Marc Gasol, skoraði 11 stig og tók átta fráköst.

Vlad Moldoveanu stóð upp úr í liði Rúmena. Hann skoraði 15 stig, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Serbar hafa unnið tvo af þremur leikjum sínum á EM.vísir/getty
Í D-riðli báru Serbar sigurorð af Tyrkjum, 80-74.

Bogdan Bogdanovic skoraði 17 stig fyrir Serbíu sem er með fimm stig í 3. sæti riðilsins.

Stefan Jovic skoraði 15 stig og gaf níu stoðsendingar. Allir leikmenn Serba sem spiluðu í leiknum í kvöld komust á blað.

Melih Mahmutoglu var stigahæstur í tyrkneska liðinu með 19 stig. Tyrkir eru með fjögur stig í 4. sæti D-riðils.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×