Körfubolti

Pavel: Aldrei hægt að ásaka þetta lið um vilja- og baráttuleysi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pavel skýtur í leiknum í dag.
Pavel skýtur í leiknum í dag. vísir/ernir
Pavel Ermolinskij, einn lykilmanna íslenska landsliðsins í körfubolta, segir að það sé ekki hægt að saka íslenska liðið um vilja- og baráttuleysi.

Ísland tapaði stórt fyrir Frakklandi á EM í dag, en þetta var þriðji leikurinn af þremur sem Ísland tapar stórt á mótinu.

„Þetta var fyrst og fremst þeirra verk í síðari hálfleik. Þeir sýndu bara mátt sinn,” sagði Pavel í samtali við Óskar Ófeig Jónsson, blaðamann 365 miðla, í Helsinki í dag.

„Þeir sýndu hversu góðir þeir eru í körfubolta og bara betri en við. Við héngum inn í þessu í fyrri hálfleik með góðri vörn, góðri hittni og áræðni.”

„Ég held að baráttan og viljinn hafi verið þarna allan tímann. Það vantar aldrei hjá okkur. Við hittum í fyrri, en ekki seinni og þá byrja hlutirnir að líta verr út.”

Sjá meira:Umfjöllun: Ísland - Frakkland 79-115 | Jón Arnór góður en enn á ný hrun í seinni hálfleik

„Við vitum að gegn svona stórum og öflugum þjóðum sem við erum að spila við þá duga ekki bara þrír góðir leikhlutar. Það þarf að spila 40 mínútur af góðum leik. Það er erfitt, en það er takmarkið sem við þurfum að reyna ná.”

Okkar menn voru bókstaflega númeri of litlir að mati Pavels, en Frakkarnir búa yfir mjög stóru og sterku liði sem við búum svo sannarlega ekki yfri.

„Við erum það bókstafalega. Það er mörg atvik í leiknum þar sem ég man eftir að ég var að dekka stóran mann hjá þeim þar sem ég gat ekkert gert. Mín barátta og vilji hefði ekki skilað neinu.”

„Þú ræður ekkert við það, en hins vegar held ég að ég geti sagt að það sé aldrei hægt að ásaka þetta lið um vilja- og baráttuleysi. Það vantar aldrei,” sagði Pavel Ermolinskij að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×