Innlent

Umferð hleypt á nýja brú yfir Morsá

Atli Ísleifsson skrifar
Nýja brúin yfir Morsá.
Nýja brúin yfir Morsá. Vegagerðin
Umferð var hleypt á nýja brú yfir Morsá síðastliðinn miðvikudag og er þá ekki lengur ekið yfir lengstu brú landsins, Skeiðarárbrú.

Í frétt á vef Vegargerðarinnar segir að þegar vatn fór að renna í vestur og ekki lengur í farveg Skeiðarár var ljóst að þörfin fyrir Skeiðarárbrú var ekki lengur til staðar. Jökulinn hafi hopað og vatnið leitað annað og var því byggð brú yfir Morsá sem er bergvatnsá sem eftir stendur.

Skeiðarárbrú var opnuð árið 1974 og þá Hringvegurinn um leið þar sem áður var enginn vegur. Skeiðarárbrú var lengsta brú landsins 880 metrar að lengd, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framtíð brúarinnar.

„Í fyrra byggði brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar 68 metra langa eftirspennta bitabrú yfir Morsá. Nýr Hringvegur og brú um Morsá er um 2,9 km að lengd og leysir af hólmi Skeiðarárbrú.

Héraðsverk, Egilsstöðum hefur unnið að vegagerð og vinnur nú að lokafrágangi. Eftir er að setja niður vegrið við brúarenda, sem gert verður í næstu viku. Unnið er að setja upp vegstikur,“ segir meðal annars í frétt Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×