Efstu fjögur liðin í Inkasso-deildinni unnu öll sína leiki í 21. umferðinni í dag.
Fylkir tryggði sér sæti í Pepsi-deildinni á næsta ári með 0-6 stórsigri á Haukum.
Adam Árni Róbertsson skoraði eina mark leiksins þegar Keflavík tók á móti Fram. Keflvíkingar eru með eins stigs forskot á Fylkismenn á toppi deildarinnar. Frammarar eru í 8. sætinu.
Þróttarar báru sigurorð af ísköldum Selfyssingum, 4-0, í Laugardalnum. Öll mörkin komu á fyrstu 34 mínútum leiksins.
Viktor Jónsson skoraði tvívegis og þeir Víðir Þorvarðarson og Oddur Björnsson sitt markið hvor.
Þróttur er í 3. sæti deildarinnar með 39 stig, jafn mörg og HK sem er í sætinu fyrir neðan.
HK vann 1-4 sigur á Gróttu á Nesinu. Þetta var tíundi sigur liðsins í síðustu 11 leikjum. Bjarni Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir HK-inga og þeir Reynir Már Sveinsson og Grétar Snær Gunnarsson sitt markið hvor. Jóhannes Hilmarsson gerði mark Seltirninga sem eru fallnir.
Leiknir R. lenti 3-0 undir gegn Þór fyrir norðan en kom til baka og náði í stig. Lokatölur 1-1.
Guðni Sigþórsson, Gunnar Örvar Stefánsson og Loftur Páll Eiríksson skoruðu mörk Þórs sem er í 7. sæti deildarinnar.
Brynjar Hlöðversson, Sævar Atli Magnússon og Tómas Óli Garðarsson voru á skotskónum hjá Leikni sem er í 5. sætinu.
Þá vann ÍR 2-0 sigur á Leiknir F. sem er þegar fallinn. Viktor Örn Guðmundsson og Jón Gísli Ström skoruðu mörk Breiðhyltinga.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
Toppliðin unnu öll sína leiki | Öll úrslit dagsins úr Inkasso-deildinni

Tengdar fréttir

Fylkir aftur upp í deild þeirra bestu
Fylkir tryggði sér sæti í Pepsi deildinni á næsta tímabili eftir 6-0 sigur á Haukum í dag.