Norrköping gerði 1-1 jafntefli á útivelli á móti Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Kalmar komst yfir strax á 9. mínútu leiksins en Karl Holmberg skoraði jöfnunarmarkið sautján mínútum fyrir leikslok.
Jón Guðni Fjóluson og Guðmundur Þórarinsson voru í byrjunarliði Norrköping og spiluðu allan leikinn.
Arnór Sigurðsson kom inná sem varamaður á 82. mínútu en Alfons Sampsted sat allan tímann á varamannabekknum.
Norrköping er í 5. sæti sænsku deildarinnar eftir þennan leik nú tveimur stigum frá 3. sætinu og ellefu stigum á eftir toppliði Malmö.
Kalmar er með tólf stigum minna í 12. sæti en hefur ekki tapað í síðustu fjórum leikjum sínum.
