Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti einróma fyrr í kvöld ályktun sem kveður á um hertar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu eftir að landið gerði öflugustu tilraun sína með kjarnavopn til þessa þann 3. september síðastliðinn.
Ályktunin var lögð fram af Bandaríkjunum sem breyttu drögunum að henni nokkuð til að fá stuðning Kína og Rússlands í öryggisráðinu.
Um er að ræða níundu ályktun ráðsins er varðar refsiaðgerðir gegn stjórnvöldum í Norður-Kóreu og kveður hún á um takmarkanir á innflutningi hráolíu og bann við útflutningi á norður-kóreskum vefnaðarvörum.
Vefnaðarvörur eru önnur helsta útflutningsafurð Norður-Kóreu og er tilgangur ályktunarinnar að svipta ríkið þeirri auðlind svo stjórnvöld hafi minna á milli handanna fyrir kjarnorku-og eldflaugaáætlun sína.
Nærri 80 prósent af vefnaðarvörunum er selt til Kína og þá flytur Norður-Kórea mest af olíu inn frá Kína.
Takmarkanir á innflutningi taka bæði til hráolíu og hreinsaðrar olíu. Norður-Kórea mun þannig ekki geta flutt inn meira en tvær milljónir af tunnum af hreinsaðri olíu á ári en talið er að í dag flytji landið inn allt að 4,5 milljónir tunna.
„Við erum hætt að reyna að hvetja stjórnvöld í Norður-Kóreu til þess að breyta rétt. Núna erum við að stoppa þau við það að breyta rangt,“ sagði Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna, í öryggisráðinu um aðgerðirnar.

