Íslenski boltinn

Rakel: Ráðum ekki örlögum okkar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rakel fagnar í leik fyrr í sumar. Spurning hvort hún fagni í leikslok í dag?
Rakel fagnar í leik fyrr í sumar. Spurning hvort hún fagni í leikslok í dag? vísir/anton
Breiðablik á frekar óvæntan möguleika á því að verða Íslandsmeistari í fótbolta í dag en þarf að klára sitt og treysta á aðstoð frá FH ef dagurinn á að vera fullkominn í Kópavogi.

Staðan fyrir lokaumferðina í Pepsi-deild kvenna er þannig að bæði Þór/KA og Breiðablik geta orðið meistarar. Þór/KA þarf að vinna sinn leik en takist það ekki þá geta Blikar stolið titlinum.

„Þetta leit ekkert vel út á tímabili og var langsótt. Við ákváðum að pæla ekkert í öðrum. Bara klára okkar leiki og sjá svo til hvernig það færi. Það hefur ekkert breyst því við ráðum örlögum okkar ekki sjálfar. Við verðum að gera okkar og vona svo það besta,“ segir Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Blika og fyrrum leikmaður Þórs/KA.

Það hjálpar Blikaliðinu ekki að síðustu vikur hefur liðið sleppt tveimur lykilmönnum. Fyrst fór Fanndís Friðriksdóttir og nú er Berglind Björg Þorvaldsdóttir farin en hún skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Stjörnunni í síðasta leik.

„Það eru ekki margir eftir í leikmannahópnum hjá okkur,“ segir Rakel og hlær. „Breiðablik vildi ekki standa í vegi fyrir þeim og við sem stöndum eftir verðum að klára verkefnið.“

Blikastúlkur spila við Grindavík í kvöld en þökk sé Grindavík á Breiðablik möguleika á titlinum. Grindavík vann nefnilega óvæntan 3-2 sigur á Þór/KA í síðustu umferð.

„Þær eru með hörkulið og þetta verður allt annað en auðvelt,“ segir Rakel en verður fylgst með gangi mála á Akureyri?

„Ég held við græðum ekkert á því að spá í þeim leik. Við slökkvum bara á netinu, spilum okkar leik og sjáum svo til í lokin. Það eru smá líkur að þetta falli með okkur en minni. Við höldum samt í vonina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×