Kvikmyndin Undir trénu í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2018.
Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA) kusu í rafrænni kosningu sem lauk á miðnætti í gær, 20. september. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framleiðendum Undir trénu.
Kosið var á milli fjögurra íslenska kvikmynda sem uppfylltu skilyrði bandarísku akademíunnar til keppni um erlenda Óskarinn.
Umræddar kvikmyndir voru:
Hjartasteinn í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar
Undir Trénu í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðassonar
Ég man þig í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar
A Reykjavik Porno í leikstjórn Graeme Maley
Undir Trénu er framleidd af Grímari Jónssyni , Sindra Páli Kjartanssyni og Þóri Snæ Sigurjónssyni fyrir framleiðslufyrirtækið Netop Films. Handritið er eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og Huldar Breiðfjörð.
Myndir segir frá Agnesi sem grípur Atla við að horfa á gamalt kynlífsmyndband, hendir honum út og meinar honum að umgangast 4 ára dóttur þeirra. Atli flytur inn á foreldra sína sem eiga í deilu við fólkið í næsta húsi.
Stórt og fagurt tré sem stendur í garði foreldranna skyggir á garð nágrannanna, sem eru orðin langþreytt á að fá ekki sól á pallinn. Á sama tíma og Atli berst fyrir umgengni við dóttur sína verður deilan um tréð sífellt harðari. Eignaspjöll eru framin og gæludýr hverfa á dularfullan hátt þegar sögusagnir um mann með keðjusög fara á kreik.
Leikarar myndarinnar hafa verið lofaðir en athyglin kemur ekki síður til vegna sögu sem þykir mjög óvenjuleg svo eftir er tekið. Hún er um leið alþjóðleg og snertir á eðli og atferli nútímafólks óháð uppruna.
Undir trénu var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og var einnig sýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto á dögunum þar sem hið virta Bandaríska dreifingarfyrirtæki Magnolia keypti réttinn að myndinni þar vestra. Hún var frumsýnd á Íslandi í byrjun september við mjög góðar undirtektir og hefur vakið mikla athygli og umtal alls staðar þar sem hún hefur komið við. Undir trénu verður nú sýnd á kvikmyndahátíðum um allan heim og fjölmörg dreifingarfyrirtæki hafa þegar tryggt sér myndina.
Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar eru tæplega 500 talsins. Þetta er í 38. sinn sem Ísland sendir framlag til Óskarsverðlaunanna, en íslenskar myndir hafa tvisvar verið tilnefndar í úrslit; kvikmyndin Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson árið 1991 og stuttmyndin Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson árið 2006.
Undir trénu verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna

Tengdar fréttir

Undir trénu aðsóknarmesta kvikmyndin á Íslandi
18.000 manns hafa séð kvikmyndina Undir trénu sem hefur fengið lofsamlegar viðtökur bæði gagnrýnenda og áhorfenda.

Steindi fór hamförum í Toronto: „Gísli Marteinn myndi fá standpínu ef hann væri hérna“
Undir trénu, nýjasta kvikmynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, hefur verið valin til þátttöku á Toronto kvikmyndahátíðinni í Kanada.

Bransinn lofsamar Undir trénu: „Ein besta íslenska kvikmynd sem ég hef séð“
Sérstök hátíðarfrumsýning var á Undir trénu á þriðjudagskvöldið í Háskólabíói og fékk kvikmyndin góðar viðtökur.

Steindi með sjóriðu í Feneyjum: „Okkur leið eins og Hollywood stjörnum“
Steinþór Hróar Steinþórsson leikur eitt aðalhlutverkið í kvikmyndinni Undir trénu en hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Edda Björgvins ausin lofi í Feneyjum
Kvikmyndin Undir trénu verður frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í dag og virðist hún fá mjög góðar viðtökur meðal gagnrýnanda.