Búið er að setja upp svið á Ingólfstorgi í miðbæ Reykjavíkur en vegfarendur tóku eftir því strax í gær að byrjað var að setja upp sviðið.
Engar upplýsingar fást hjá Reykjavíkurborg varðandi það hvers vegna sviðið er sett upp. Þó má leiða líkur að því að stefnt sé á hátíðahöld í miðbænum í kvöld ef íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu kemst á HM í Rússlandi en liðið getur tryggt sér farmiðann á mótið í kvöld með sigri á Kósóvó á Laugardalsvelli.
Þegar liðið komst á Evrópumótið í Frakklandi í september 2015 voru hátíðahöld á Ingólfstorgi þar sem tónlistarmenn komu fram áður en landsliðið sjálft mætti og fagnaði með mannfjöldanum.
Á meðan á EM stóð var síðan sett upp svokallað FanZone, eða áhorfendasvæði, á Ingólfstorgi þar sem fólk kom saman og fylgdist með leikjum landsliðsins í Frakklandi.
Setja upp svið á Ingólfstorgi

Tengdar fréttir

Íslendingar þegar farnir að líta til Rússlands
Mikill áhugi er hjá Íslendingum á flugferðum til Rússlands nú þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er hársbreidd frá HM á næsta ári. Verður öðruvísi ferðalag en til Frakklands.

Þorgerður hundfúl og vill nýjan fjölnota þjóðarleikvang
"Persónulega tel ég æskilegast að U2 haldi fyrstu tónleikana en er líka opin fyrir Beyoncé.“

Versta martröð Shaka Hislop gæti orðið að veruleika komist Ísland á HM
Markvörðurinn frá Trínidad vill ekki að íslenska liðið vinni í kvöld og komist á HM í Rússlandi.