Fyrri æfingin
Hamilton var fljótastur á æfingunni, rúmlega hálfri sekúndu fljótari en Sebastian Vettel á Ferrari. Valtteri Bottas á Mercedes varð þriðji og síðasti ökumaðurinn sem komst innan við sekúndu frá tíma Hamilton.
Brendon Hartley, nýliðinn hjá Toro Rosso var 14. Hann var 1,2 sekúndum á undan varaökumanni liðsins, Sean Gelael sem fékk að spreyta sig. Hartley var næstum þremur heilum sekúndum á eftir Hamilton.
Fernando Alonso sem framlengdi við liðið sitt, McLaren fyrr í vikunni náði ekki að setja tíma. Glussaleki gerði vart við sig í bíl Spánverjans.

Hamilton sýndi og sannaði aftur að hann er ógnar hraður á brautinni í Texas og var fljótastur á seinni æfingunni.
Titilvonir Hamilton jukust á kostnað titilvona Vettel sem skautaði útaf á æfingunni og þurfti að nota mikinn tíma af æfingunni til að koma bílnum í stand. Þegar hann kom loksins út varð hann var við bilun í fjörðun og þurfti að koma inn aftur. Hann kom aðeins út undir lok æfingarinnar.
Carlos Sainz fékk að spreyta sig í Renault bílnum í fyrsta skipti, hann var 0,005 sekúndum á undan Nico Hulkenberg.
Daniil Kvyat snéri aftur í Formúlu 1 í dag eftir að Pierre Gasly hafði fengið tækifæri í bíl Rússans. Kvyat var rúmri sekúndu fljótari en Hartley.
Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 20:50 á Stöð 2 Sport á eftir. Bein útsending frá keppninni hefst klukkan 18:30 á sunnudag á Stöð 2 Sport.