Þó svo að öll áhersla hjá Volkswagen, sem og mörgum öðrum evrópskum bílaframleiðendum, sé á framleiðslu tengiltvinnbíla og rafmagnsbíla ætlar Volkswagen ekki að bjóða neinn slíkan bíl á markaði í Bandaríkjunum. Þannig er staðan nú og verður það á næstunni ef marka má orð forstjóra Volkswagen, Herbert Diess.
Hann telur að það muni alls ekki svara kostnaði að bjóða slíka bíla á markaði sem hefur mjög takmarkaðan áhuga á slíkum bílum. Sala tengiltvinnbíla og rafmagnsbíla er fremur dræm í Bandaríkjunum og er það að mestu rakið til þess hve ódýrt eldsneyti er þar í landi.
Audi, sem tilheyrir Volkswagen býður hinsvegar Audi A3 e-tron tengiltvinnbílinn á ákveðnum markaðssvæðum í Bandaríkjunum, en ekki Audi Q7 e-tron jeppann af sömu ástæðu og Volkswagen býður ekki sína tengiltvinnbíla í Bandaríkjunum.
Hin stóra Volkswagen bílafjölskylda ætlar að kynna nýjan tengiltvinn- eða rafmagnsbíl í hverjum mánuði næstu 15 mánuðina, en ekki er líklegt að nokkur þeirra rati að ströndum Bandaríkjanna, þar er einfaldlega lítil eftirspurn eftir þeim.

