Alls nam tapið 20 milljónum og hafa eigendur róið lífróður til að bjarga hátíðinni. Hafa safnað 17 milljónum, meðal annars með hlutabréfasölu en hægt er að kaupa eitt prósent í hátíðinni á 200 þúsund krónur.
„Við höfum verið að selja hlutabréfin til að fjármagna tapið. Það eru sjö prósent eftir. En salan dugar ekki alveg því að enn er þriggja milljóna króna bil sem við þurfum að brúa,“ segir Karl Óttar.

„Okkur vantar þrjár milljónir og við þurfum að finna einhvern til að styrkja okkur. Okkur vantar stóran styrktaraðila til að vinna með okkur. Einhvern sem sér sér hag í því að tengjast því sem við stöndum fyrir.
Við erum að bóka bönd fyrir komandi hátíð og við trúum að við náum að fylla upp í þetta gat. Við ætlum að standa við okkar skuldbindingar. Við skiljum engan eftir enda bannað að vera fáviti,“ segir Karl Óttar en það eru einmitt einkunnarorð hátíðarinnar. Í þau tólf skipti sem hátíðin hefur verið haldin hafa þessi orð fengið sífellt meiri hljómgrunn enda sönn og góð.
„Við keyrum á þeirri sérstöðu að allir séu vinir og þarna komi fólk til að upplifa stemningu. Þetta er ekki fyllerí til að lemja og vera vondur við náungann. Þarna er menningin að vera góður og allir hjálpast að. Allir tala við alla og við viljum efla þá menningu.
Við höfum reynt að axla samfélagslega ábyrgð og leggjum áherslu á að við stöndum fyrir ábyrgð,“ segir Karl Óttar.