Viðskipti innlent

Ís­lands­banki opnar á verð­tryggð hús­næðis­lán á föstum vöxtum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Íslandsbanki hefur lækkað vexti.
Íslandsbanki hefur lækkað vexti. Vísir/Vilhelm

Íslandsbanki hefur ákveðið að hefja á ný veitingu verðtryggðra húsnæðislána á föstum vöxtum. Í kjölfar nýlegs dóms Hæstaréttar gerði bankinn tímabundið hlé á veitingum slíkra lána.

Íslandsbanki greinir frá því í tilkynningu að boðið verði upp á verðtryggð húsnæðislán á föstum vöxtum til fimm ára í senn fyrir fyrstu kaupendur og aðra, með vaxtaviðmið Seðlabanka Íslands eru til hliðsjónar.

Fram kemur í tilkynningunni að eftir að fastvaxtatímabilinu ljúki ákvarðist vextir til fimm áranna þar á eftir af því lægra sem er af annars vegar þeim vaxtakjörum sem Íslandsbanki býður á nýjum verðtryggðum húsnæðislánum á þeim tíma eða hins vegar föstum lánstímavöxtum Seðlabankans fyrir verðtryggð lán til fimm ára, að viðbættu vaxtaálagi.

Tekið er fram að í seinna viðmiðinu skuli fastir lánstímavextir og álag að samanlögðu ekki vera lægra en 3,50 prósent fyrir grunnlán. 

Ef Seðlabanki Íslands hættir að reikna og birta framangreint vaxtaviðmið miðar seinna tilfellið við tilgreint prósentuhlutfall (5,25% fyrir grunnlán) í stað framangreinds vaxtaviðmiðs að viðbættu álagi. Við lok fastvaxtatímabils býðst lántaka jafnframt að endurfjármagna lánið eða greiða það upp án uppgreiðslugjalda, áður en nýtt fastvaxtatímabil hefst.

Opnað verður fyrir nýjar umsóknir á morgun, 10. nóvember, og segist bankinn munu vinna hratt og örugglega úr þeim umsóknum sem þegar hafa boðið. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Íslandsbanka og það verður jafnframt rætt við Jón Guðna Ómarsson bankastjóra Íslandsbanka í kvöldfréttum Sýnar klukkan 18:30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×