Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta segir að möguleikinn á stríði við Norður-Kóreu fari vaxandi dag frá degi en að hernaðaraðgerðir séu ekki eina lausnin. Bandaríkjaher skoðar nú að koma fyrir eldflaugavarnarkerfi á vesturströnd Bandaríkjanna til að verjast hugsanlegri ógn frá Norður-Kóreu.
Spennan á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu hefur stigmagnast undanfarin misseri vegna kjarnorku- og eldflaugatilrauna stjórnvalda í Pjongjang. Eldflaugatilraunirnar héldu áfram í vikunni eftir tveggja mánaða hlé.
Nú segir HR McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, að Hvíta húsið keppist við að taka á hættunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
„Það eru leiðir til að taka á þessu vandamál aðrar en stríðsátök en þetta er kapphlaup vegna þess að hann er að færast nær og nær og það er ekki mikill tími til stefnu,“ sagði McMaster um Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu á viðburði í Kaliforníu.
Ráðgjafinn vill að Kínverjar axli ábyrgð, meðal annars með því að koma á algeru olíuviðskiptabanni á Norður-Kóreu til að gera stjórnvöldum þar erfitt að fylla á eldflaugar sínar.
Reuters-fréttastofan segir að bandaríska varnarmálaráðuneytið leiti nú að stöðum á vesturströnd Bandaríkjanna fyrir eldflaugavarnir. Það sé áríðandi í ljósi hraðra framfara í kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu. Stjórnvöld í Norður-Kóreu segja að langdrægar eldflaugar þeirra geti náð til meginlands Bandaríkjanna.
Líkurnar á stríði við Norður-Kóreu fara vaxandi

Tengdar fréttir

Fyrsta eldflaugatilraun N-Kóreu í tvo mánuði
Norður-kóreski herinn skaut í dag upp eldflaug í fyrsta sinn í rúmlega tvo mánuði, að því er suður-kóreski herinn greinir frá.

Kjarnorkuviðvörunarsírenur ómuðu í fyrsta skipti frá kalda stríðinu
Ástæða prófanana er aukin spenna milli Bandaríkjanna og N-Kóreu. Sírenunum er ætlað að gefa íbúum fimmtán mínútna fyrirvara fyrir kjarnorkuárás.