Viðskipti innlent

Tíu milljarða viðskipti

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Stefán Sigurðsson og Ingibjörg Pálmadóttir.
Stefán Sigurðsson og Ingibjörg Pálmadóttir. Vísir/anton brink
Vodafone tekur í dag við rekstri útvarps- og sjónvarpssviðs 365 ásamt visir.is og fjarskiptasviði 365.

Vodafone greiðir um 8,3 milljarða króna fyrir þessar einingar 365 miðla en samtals er um 10 milljarða viðskipti að ræða. Samhliða sölu greiðir 365 upp 97% af langtímalánum félagsins og eignast um leið 11% hlut í Vodafone.

Þá hefur rekstur Fréttablaðsins verið settur í dótturfélagið Torg ehf. Mun félagið á næstunni kynna nýjungar í fjölmiðlun.

„Ég er ánægð með að þessu ferli er lokið,“ segir Ingibjörg Pálmadóttir, forstjóri 365.

„Þegar ég tók við sem forstjóri í vetur var sett aukin áhersla á sölumál. Það hefur skilað góðum árangri og hefur afkoma seldra eininga aukist um 40% á árinu.

Starfsmenn 365 hafa staðið sig frábærlega í því að ná þessum árangri. Við sjáum tækifæri í því að hafa Fréttablaðið í sérfélagi. Það gefur meiri sveigjanleika til að eflast og þróast. Fréttablaðið mun kynna spennandi nýjungar á næstunni,“ segir Ingibjörg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×