Víkingur R. hefur samið við Gunnlaug Hlyn Birgisson og Sindra Scheving um að leika með liðinu næstu tvö árin.
Gunnlaugur, sem er 22 ára, lék 21 leik með Víkingi Ó. í Pepsi-deild karla síðasta sumar. Hann hefur einnig leikið með Breiðabliki og Fram og þá var hann á mála hjá Club Brügge í Belgíu á árunum 2012-14.
Sindri, sem er tvítugur, kemur til Víkings frá Val. Á síðasta tímabili lék hann 21 leik með Haukum í Inkasso-deildinni. Hann lék með unglingaliði Reading á Englandi á árunum 2014-17.
Áður voru Víkingar búnir að fá Sölva Geir Ottesen heim úr atvinnumennsku. Geoffrey Castillion, Viktor Bjarki Arnarsson og Ívar Örn Jónsson eru hins vegar horfnir á braut.
Víkingur endaði í 8. sæti Pepsi-deildarinnar á síðasta tímabili.

