Erlent

Talinn hafa starfað sem útsendari Norður-Kóreu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá handtöku hins 59 ára Chan Han Choi.
Frá handtöku hins 59 ára Chan Han Choi. Vísir/epa
Karlmaður var handtekinn í Sydney fyrir að hafa starfað sem „efnahagslegur útsendari“ Norður-Kóreu. Þetta staðfesta lögregluyfirvöld í Ástralíu, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins.

Maðurinn, hinn 59 ára gamli Chan Han Choi, hefur verið ákærður fyrir viðskipti á ólöglegum útflutningsvörum frá Norður-Kóreu og að hafa uppi umræðu um framboð á kjarnavopnum. Þá er hann talinn hafa brotið áströlsk lög um viðskiptabann gegn Norður-Kóreu, auk sambærilegra laga sem samþykkt voru af Sameinuðu þjóðunum.

Um er að ræða fyrsta mál af þessu tagi sem kemur upp í Ástralíu en hinn ákærði, ástralskur ríkisborgari ættaður frá Kóreuskaga, hefur verið búsettur í Ástralíu í rúma þrjá áratugi. Þá segja yfirvöld að ýmislegt bendi til þess að Chan hafi átt í samskiptum við „háttsetta embættismenn í Norður-Kóreu.“

Chan er jafnframt lýst sem „tryggum útsendara“ sem hélt fána þjóðerniskenndar á lofti með störfum sínum fyrir einræðisríkið. Ekki er talið að hætta hafi stafað af glæpunum sem Chan er ákærður fyrir en hann gæti þó átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisvist.

Í október greindu áströlsk stjórnvöld frá því að þeim hefði borist bréf frá yfirvöldum í Norður-Kóreu þar sem þau voru hvött til að slíta samskiptum við ríkisstjórn Donalds Trump, Bandaríkjaforseta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×