Fimm flokkar áttu fulltrúa á þingi á kjörtímabilinu 2009 til 2013. Í kosningum 2013 náðu sex flokkar kjöri. Á nýloknu kjörtímabili áttu sjö flokkar kjörna fulltrúa á Alþingi og þeim fjölgaði um einn eftir nýafstaðnar kosningar og eru nú átta sem er metfjöldi þingflokka.
Í reglum forsætisnefndar Alþingis um þingfararkostnað er kveðið á um álagsgreiðslur vegna ábyrgðarstarfa af ýmsum toga. Flokksformenn fá greitt 50 prósent álag á þingfararkaup sitt. Þetta álag er eingöngu greitt til formanna sem ekki eru ráðherrar.
Formenn allra þingflokka fá einnig álag á sín laun sem nemur 15 prósentum af þingfararkaupi. Átta þingmenn eru þingflokksformenn og fá 15 prósent álag. Sömu álagsgreiðslur fá sex varaforsetar og átta formenn fastanefnda. Hver varaformaður fastanefndar fær 10 prósent álag og annar varaformaður hverrar nefndar fær fimm prósent álag á þingfararkaup sitt.

Gegni enginn þingmaður tveimur eða fleiri umræddra embætta, standa einungis átta þingmenn eftir af 63 sem fá þingfararkaup án sérstaks álags.

Auk þingfararkaups og álags vegna tengdra starfa fá alþingismenn einnig fastar greiðslur vegna kostnaðar sem hlotist getur af starfi þeirra. Alþingismenn fá að lágmarki 70.000 kr. í fastar greiðslur á mánuði vegna starfskostnaðar og ferðakostnaðar.
Þingmenn í landsbyggðarkjördæmum fá að auki greiddar 134.041 kr. í fastan húsnæðis- og dvalarkostnað. Fjárhæðin er ætluð til að standa undir húsnæðis- og dvalarkostnaði á höfuðborgarsvæðinu eða í kjördæminu ef þingmaður á heimili á höfuðborgarsvæði.
Haldi landsbyggðarþingmaður sem á heimili utan höfuðborgarsvæðisins annað heimili í Reykjavík getur hann hins vegar óskað eftir 40 prósent álagi á greiðslur vegna húsnæðis- og dvalarkostnaðar sem hækkar þá upp í 187.657. kr.
Fastar greiðslur alþingismanna úr landsbyggðarkjördæmi, aðrar en launagreiðslur, geta því farið upp í 257.657 kr. á mánuði. Ef svo er ástatt um formann flokks sem ekki er ráðherra eru laun hans auk greiðslna vegna ferða-, húsnæðis- og starfskostnaðar 1.909.448 kr. á mánuði.