Erlent

Ivanka gagnrýnd fyrir að lofsama ræðu Opruh

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Bæði Oprah og Ivanka hafa verið orðaðar við Hvíta húsið árið 2020.
Bæði Oprah og Ivanka hafa verið orðaðar við Hvíta húsið árið 2020. Vísir/Getty
Ivanka Trump, elsta dóttir og einn helsti ráðgjafi Donalds Trump bandaríkjaforseta, er ein þeirra sem var innblásin af ræðu Opruh Winfrey á Golden Globe verðlaununum um liðna helgi. Ræða Opruh vakti gríðarlega athygli og hefur hún verið orðuð við forsetaembættið síðustu daga.

Ræða Opruh var innblásin af MeToo-byltinguni og sagði hún að ný dögun væri á sjóndeildarhringnum og að konur muni ekki lengur þola ofbeldi af hálfu karlmanna.

Ivanka lofsamaði ræðu Winfrey á Twitter síðu sinni og kallaði eftir því að konur og karlar stæðu saman. Nefndi hún Time‘s Up herferðina sem snýr að því að uppræta kynferðislega áreitni innan skemmtanaiðnaðarins og á öðrum vinnustöðum.

Ivanka hefur nú verið gagnrýnd fyrir að styðja bæði föður sinn forsetann og Time‘s Up en fjöldi kvenna hefur sakað Donald Trump um kynferðislega áreitni og og kynferðisofbeldi. Forsetinn hefur hafnað öllum slíkum ásökunum en mörgum þykir það hræsni að Ivanka telji sig geta staðið við bakið á honum og talað gegn ofbeldi.

Forsetinn var meðal annars sakaður um að káfa á konum, þvinga þær til að kyssa sig og að ganga óvænt inn í búningsherbergi í fegurðarsamkeppnum.

Ivanka Trump hefur gert málefni kvenna að sínu aðal umfjöllunarefni síðan hún tók við starfi sínu sem ráðgjafi forsetans. Á ráðstefnu í Tokyo í nóvember sagði hún til að mynda að kynferðisleg áreitni ætti aldrei að líðast.


Tengdar fréttir

Oprah Winfrey sögð alvarlega íhuga forsetaframboð

Bandaríski þáttastjórnandinn og leikkonan Oprah Winfrey er sögð alvarlega íhuga framboð til embætti forseta Bandaríkjanna árið 2020 að því er CNN hefur eftir tveimur nánum vinum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×