Brynja Baldursdóttir var kjörin í stjórn Fossa markaða á hluthafafundi félagsins í desember síðastliðnum. Brynja er framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi samhliða því að vera svæðisstjóri Creditinfo Group í Norður- og Suður Evrópu. Creditinfo er með starfsemi í 28 löndum víðs vegar um heiminn. Úr stjórn gekk Aðalsteinn E. Jónasson sem hefur tekið sæti í Landsrétti.
Brynja hefur mikla reynslu af stjórnun í tækni- og söluumhverfi en hún starfaði meðal annars sem forstöðumaður hjá Símanum og samstæðustjóri hjá OZ. Brynja er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í aðgerðagreiningu frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum.
„Það er mikill fengur fyrir okkur hjá Fossum mörkuðum á fá Brynju til liðs við okkur. Hún býr að mikilli stjórnunarreynslu og hefur víðtæka þekkingu á fjármála- og upplýsingatæknigeiranum. Án efa mun sérfræðikunnátta hennar styðja við markmið Fossa um áframhaldandi uppbyggingu á markaði hér heim sem og á erlendri grundu“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.
Fossar markaðir hf. er óháð verbréfafyrirtæki sem þjónustar innlenda og erlenda fagfjárfesta á sviði verðbréfamiðlunar. Félagið er aðili að Nasdaq Iceland kauphöllinni ásamt því að hafa aðgang að yfir 80 kauphöllum út um allan heim. Fossar veita alhliða þjónustu í tengslum við verbréfaviðskipti á fjármálamarkaði og eru með skrifstofur í Reykjavík, London og Stokkhólmi.
Brynja í stjórn Fossa markaða
