Erlent

Lögmaður Trump sagður hafa greitt klámmyndaleikkonu fyrir þögn

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Stephanie Clifford, einnig þekkt sem Stormy Daniels.
Donald Trump og Stephanie Clifford, einnig þekkt sem Stormy Daniels. Vísir/Getty
Lögmaður Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, greiddi fyrrverandi klámmyndastjörnu 130 þúsund dali, sem samsvarar rúmum þrettán milljónum króna, einum mánuði fyrir forsetakosningarnar 2016. Greiðslan var vegna samkomulags um að hún myndi ekki segja frá því að hafa stundað kynlíf með forsetanum árið 2006. Þetta hefur Wall Street Journal eftir heimildarmönnum sem sagðir eru þekkja málið.

Hvíta húsið og lögmaðurinn Michael Cohen þvertaka fyrir að þetta sé satt.

WSJ segir leikkonuna sem heitir Stephanie Clifford hafa sagt fólki frá því að hún hafi haft mök við Trump eftir golfmót við Tahoevatn sumarið 2006. Trump og Melania Trump gengu í það heilaga árið 2005.

Fregnir af meintu framhjáhaldi Trump voru einnig á kreiki á árum áður og fyrir kosningarnar og þá sérstaklega varðandi það að Cliffords, sem einnig gekk undir nafninu Stormy Daniels, hafi verið í viðræðum við forsvarsmenn sjónvarpsþáttarins Good Morning America á NBC um að segja þeim sögu sína.

Cohen sendi WSJ tilkynningu þar sem hann sagði þetta vera í annað sinn sem fjölmiðillinn væri að velta vöngum yfir þessum „fáránlegu“ ásökunum. Allir viðkomandi aðilar hefðu neitað þessu frá árinu 2011. Hann sendi fjölmiðlinum einnig yfirlýsingu sem var titluð „Til þess sem málið varðar“ og bar undirskriftina „Stormy Daniels“ þar sem hún neitaði því að hafa átt í ástarsambandi við Trump og að hún hefði ekki tekið við peningum fyrir þögn sína.

Clifford svaraði þó ekki fyrirspurnum blaðamanna Wall Street Journal sjálf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×