Hermann, gerir þú mikið að því að yrkja? Nei, þetta ljóð var bara skólaverkefni.
Nú segir það mikla sögu. Er hún byggð á eigin upplifun? Nei, þetta var bara eitthvað sem mér datt í hug. Ég sá þetta bara fyrir mér.
Hvað fékkstu í verðlaun? Ég fékk bækur, rós og peninga.
Í hverju ertu bestur í skólanum? Ég er örugglega bestur í íslensku en mér finnst stærðfræðin skemmtilegri. Svo er ég líka góður í ensku og dönsku.

Hefurðu eitthvað ferðast? Já, bæði innanlands og til útlanda.
Hver er skemmtilegasta ferð sem þú hefur farið í? Ég held þegar ég fór til Englands núna um daginn, við fórum á tvo fótboltaleiki með uppáhaldsliðinu mínu, Manchester United, móti Southampton og Everton, það gerði jafntefli í öðrum og vann hinn.
Af hverju heldurðu með Manchester United? Bróðir minn byrjaði að halda með því.
Hvernig leikur þú þér helst? Við vinirnir erum mikið úti í bolta, bæði fótbolta og körfubolta.
Hefurðu einhvern tíma verið í hættu staddur? Kannski pínu. Ég var í útlöndum og við vorum að fara í lest, þá var geitungur að sveima akkúrat í dyrunum og ég þorði ekki inn en hurðin var byrjuð að lokast og pabbi tosaði mig inn. Svo vorum við einu sinni veðurteppt uppi á Holtavörðuheiði í brjáluðum snjóbyl. En það komu björgunarsveitir og ferjuðu okkur og fleira fólk í Reykjaskóla í Hrútafirði.
Farið þið stundum norður? Já, ég á ömmur og afa á Sauðárkróki og nágrenni, við förum oft að heilsa upp á þau. Önnur amma mín á heima á Meyjarlandi á Reykjaströnd. Hún á kindur, geitur og hesta.