Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 91-80 | Haukar sigruðu Val í endurkomu Helenu

Böðvar Sigurbjörnsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Ernir
Haukar og Valur mættust í kvöld í Dominos deild kvenna í körfubola. Um sannkallaðan toppslag var að ræða en liðin sátu í efstu tveimur sætunum fyrir viðureignina í kvöld, Valur efst með 26 stig og Haukar í öðru sæti með 24 stig.

Helena Sverrisdóttir snéri aftur í lið Hauka eftir að hafa leikið erlendis í atvinnumennsku síðustu misseri. Óhætt er að segja að endurkoma Helenu hafi haft góð áhrif á lið Hauka sem mætti gríðarlega vel stefnt til leiks í kvöld. Haukar náðu fljótlega undurtökunum í leiknum og voru ávallt skrefi á undan.

Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn á liðunum 17 stig og Haukar með góð tök á leiknum. Darri Freyr Atlason þjálfari Vals hefur lesið vel yfir liði sínu í hálfleik því Valsliðið mætt töluvert grimmara til leiks í seinni hálfleik og tókst að minnka forskot Hauka niður í 12 stig upphafi þriðja leikhluta.

Í fjórða og síðasta leikhluta leiksins reyndi Valsliðið hvað það gat að minnka muninn niður fyrir 10 stiga múrinn en þrátt fyrir að hafa fengið nokkur góð tækifæri til þess tókst það ekki. Haukar unnum því að lokum nokkuð öruggum og verðskuldaðan sigur á heimavelli sínum 91-80. Með sigrinum í kvöld tylltu Hauka stúlkur sér á topp Dominos deildar kvenna.

Afhverju unnu Haukar?

Þær mættu mjög vel stefndar til leiks og spiluðu fyrir hvor aðra. Boltinn gekk vel í sókninni og þær spiluðu góða vörn. Náðu strax undirtökunum í leiknum og héldu forystunni allt til loka.

Hverjar stóðu upp úr?

Helena Sverrisdóttir var að öðrum ólöstuðum besti maður leiksins, var með þrefalda tvennu. Hún sendi aftur og aftur glæsilegar sendingar á liðsfélaga sína sem skiluðu flottum körfum fyrir Hauka. Hún endaði leikinn með 17 stoðsendingar, 13 fráköst og 12 stig.

Hvað gekk illa?

Valsliðið mætti ekki nægilega vel til leiks í kvöld og eftir erfiða byrjun voru þær í því hlutverki að elta allan leikinn. Þrátt fyrir góðan sigur töpuðu Haukar 20 boltum í leiknum, óvíst er hvort þær hefðu komist upp með það hefði Valsliðið fundið fjölina í kvöld.

Hvað gerist næst?

Baráttan á toppnum heldur áfram. Valur fær Keflavík í heimsókn og Haukar fara í Garðabæinn og leika gegn Stjörnunni.

Haukar-Valur (24-16, 52-35, 73-57, 91-80)



Haukar:Whitney Michelle Frazier 19/15/4, Dýrfinna Arnardóttir 17/2, Rósa Björk Pétursdóttir 16/4/2, Helena Sverrisdóttir 12/13/17, Þóra Kristín Jónsdóttir 16/4/5.

Valur:Aalyah Whiteside 31/9/4, Hallveig Jónsdóttir 18/3/6, Dagbjört Samúelsdóttir 5/1/1, Guðbjörg Sverrisdóttir 5/1/3, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 3/3/1

Ingvar Þór: Komnar með liðið sem verður til loka

Ingvar Þór Guðjónsson þjálfari Hauka var heilt yfir ánægður með sigurinn.

„Fyrir mesta parta var ég mjög sáttur með leikinn og við áttum fullt af flottum köflum, en við vorum samt með 20 tapaða bolta og köstuðum því boltanum því of oft frá okkur.“

Ingvar fagnaði því að vera komin með sitt sterkasta lið.

„Núna erum við komnar með liðið sem við verðum væntanlega með til loka og það var gaman að sjá Helenu og Whitney spila saman en hinar stelpurnar í liðinu voru líka virkilega flottar.“

„Helena færir okkur mikla yfirvegun og ró í sókninni, ef það er verið að tvídekka á hana þá finnur hún hina opna leikmenn í sókninni,“ sagði Ingvar Þór þjálfari Hauka að lokum.

Helena: Þarf að sýna þinn besta leik þegar þú ert að spila á móti toppliðinu.

„Þegar þú ert að spila á móti liðinu sem er í fyrsta sæti þá veistu að þú þarft að eiga hörku leik og spila góða vörn til að eiga möguleika á að vinna, það tókst okkur vel í kvöld,“ sagði Helena Sverrisdóttir eftir leikinn.

Heimaleikjarétturinn það sem allir vilja

„Já að sjálfsögðu er heimaleikjarétturinn það sem allir vilja. Við vitum alveg að við getum verið mjög góðar en við getum líka átt slæma daga. Við getum tekið fullt gott úr þessum leik en þurfum líka að fara yfir það sem betur má fara,“ sagði Helena Sverrisdóttir leikmaður Hauka og bætti því við að það væri gott að vera komin heim.

 





Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira