Musk hóf feril sinn sem fyrirsæta í Suður-Afríku, fimmtán ára gömul. Hún sagði þó tímabundið skilið við fyrirsætustörfin en Musk er næringarfræðingur að mennt og hefur lokið tveimur meistaragráðum. Þá kannast eflaust margir við eftirnafn hennar en Musk er móðir milljarðamæringsins og uppfinningamannsins Elons Musk.
Eldri fyrirsætur virðast eiga upp á pallborðið hjá lesendum tískutímarita og Instagram-notenda um þessar mundir, að því er fram kemur í umfjöllun BBC um málið. Musk notfærir sér sjálf samfélagsmiðla til að koma sér á framfæri og deilir reglulega myndum af sér með fylgjendum sínum, sem eru um 90 þúsund talsins.

Musk segir enn fremur náttúrulega, hvíta hárlit sinn hafa hjálpað sér að festa sig í sessi innan tískuheimsins. Á liðnu ári sat Musk fyrir á forsíðum tímaríta á borð við New York Magazine, Elle í Kanada og kóreska Vogue. Þá er hún elsta fyrirsætan sem ráðin hefur verið sem andlit snyrtivörufyrirtækisins CoverGirl í Bandaríkjunum.
Einhverjir tískuspekingar, sem BBC náði tali af, telja eldri fyrirsætur á borð við Musk komnar til að vera. Aðrir segja þó að um tískubólu sé að ræða og aldurinn muni brátt jafnast út að nýju.
Maye Musk á, eins og áður sagði, 50 ára fyrirsætuferil að baki og komst í úrslit Ungfrú Suður-Afríku-keppninnar árið 1969. Ári síðar giftist hún suður-afríska verkfræðingnum Errol Musk og átti með honum þrjú börn, Kimbal, Tosca og téðan Elon.
Musk fór með hlutverk í tónlistarmyndbandi stjórstjörnunnar Beyoncé við lagið Haunted sem kom út árið 2014. Myndbandið má sjá í spilaranum hér að neðan.