Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 28-21 | Haukar í undanúrslit eftir stórsigur

Einar Sigurvinsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka.
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka. vísir/anton
Haukar unnu sjö marka sigur á bikarmeisturum Vals, 28-21, í 8 liða úrslitum Coca Cola bikarsins í kvöld. Leikurinn fór fram í Schen­ker-höll­inni í Hafnar­f­irði. Sigur Hauka var öruggur en staðan í hálfleik var 14-9 fyrir heimamenn.

 

Öflug vörn Hauka einkenndi fyrri hálfleikinn. Valsmenn áttu í miklum erfiðleikum með að skapa sér færi og eftir 15. mínútna leik höfðu þeir aðeins skorað tvö mörk. Staðan þá 7-2 og Valur tók leikhlé.

Framfarir Valsmanna voru litlar í kjölfarið og héldu Haukar áfram að auka forystuna. Eftir 21. mínútna leik, í stöðunni 11-4 og skipti Snorri Steinn Guðjónsson sjálfum sér inn á, og fór þá fyrst að sjást batamerki á sóknarleik Valsmanna.



Síðustu 9. mínúturnar skoraði Valur fimm mörk, einu marki meira en þeim hafði tekist að skora fyrstu 21. mínútuna. Þrátt fyrir að sóknarleikur Valsmanna hafi batnað tókst Haukum að halda sínum takti í sókninni. Staða í hálfleik 14-9, gott fimm marka forskot heimamanna.

 

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og skoruðu fyrstu tvö mörk síðari hálfleiksins. Á 35. mínútu skoraði Snorri Steinn þriðja markið sitt í síðari hálfleik, staðan 15-13 og allt stefndi í spennandi seinni hálfleik.

 

Þá settu Haukar í annan gír og skoruðu næstu sex mörk. Staðan því orðin 21-13 á 44. mínútu. Í kjölfarið var sigur Hauka aldrei í hættu. Þeir héldu sínum takti, bæði í vörn og sókn. Leiknum lauk leiknum með sjö marka sigri Hauka, 28-21.

 

Af hverju unnu Haukar leikinn?

Það var fyrst og fremst frábær varnaleikur Hauka sem tryggði þennan sigur. Fyrir aftan vörnina var Björgvin Páll síðan í flottu formi, með yfir 40 prósent markvörslu.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Varnarpakki Hauka eins og hann leggur sig. Valsmenn áttu í miklu basli með að finna leiðir í gegnum vörn Hauka og enduðu oftar en ekki með því að neyðast til að taka skot úr vonlausum færum.

 

Í Haukum voru þeir Heimir Óli Heimisson og Atli Már Báruson markahæstir með 5 mörk. Jafnmörg og markahæsti maður Vals, Snorri Steinn Guðjónsson.

 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Valsmanna. Sérstaklega í fyrri hálfleik en þeim tókst ekki að skora nema tvö mörk á fyrstu 15. mínútum leiksins. Þeir náðu þó að koma sér aftur inn í leikinn í síðari hálfleik en þá datt sóknin aftur niður og Haukar náðu 6-0 kafla sem kláraði leikinn.

 

Hvað gerist næst?

Það eru hörkuleikir framundan hjá liðinum. Næsta mánudag taka Haukar á móti sjóðheitu liði Aftureldingar, en Mosfellingarnir hafa unnið síðust þrjá leiki sína í Olís-deildinni.

 

Valsmenn fá aðeins lengri hvíld, en þeir mæta toppliði FH í Kaplakrika mánudaginn 19. febrúar.

Snorri Steinn: Lið sem eru bara skrefinu á undan okkur

„Vonbrigði með að tapa og gríðarleg vonbrigði með frammistöðuna. Við áttum ekkert skilið út úr þessum leik,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson spilandi þjálfari Vals eftir að hans lið féll út úr bikarnum gegn Haukum í kvöld.

 

„Það er eins og gengur og gerist, hitt og þetta sem veldur því, en það svíður ennþá meira að hafa ekki veitt Haukum smá keppni“.


Valsmönnum gekk illa að finna leiðir í gegnum vörn Hauka og höfðu til að mynda aðeins skorað tvö mörk þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður.

 

„Leikurinn byrjaði eins og við var að búast. Bæði lið voru þétt fyrir og það var ekki mikið skorað í fyrri hálfleik, Haukar kannski aðeins meira að fá einhver mörk. Það var ekkert að valda mér allt of miklum áhyggjum, það er aðallega leikurinn á heildina litið sem truflar mig.“

 

Sóknarleikur Vals batnaði töluvert eftir að Snorri Steinn kom sjálfur inn á. Hefði hann átt að koma inn á fyrr?



„Mér fannst ég ekkert umturna leiknum, ég veit það ekki, ég þarf bara að skoða það aftur. En það er eflaust ágætis punktur og ég velti því alveg fyrir mér. En Maggi var frábær í síðasta leik og mér fannst bara eðlilegt að setja hann þarna fyrst þegar það gekk illa. 



Val hefur gengið ágætlega í Olís-deildinni í vetur og eru sem stendur í 3. sæti deildarinnar. Snorri vill þó meina að það sé mikill getumunur á hans liði og öðrum liðum deildarinnar.

 

„Ef ég á að vera á að vera hreinskilinn þá eru lið þarna sem eru bara skrefinu á undan okkur hvað varðar gæði. Mér finnst vanta upp á fullt af hlutum hjá okkur. Ég ætla bara að horfa sem minnst á töfluna og frekar horfa í frammistöðuna. Hún þarf að vera betri til þess að við nálgumst þessi lið sem eru fyrir ofan okkur.“



Snorri Steinn telur að Haukar séu einfaldlega skrefinu á undan Valsliðinu í dag.



„Hvernig fór leikurinn? Úrslitin ljúga aldrei, það er bara þannig. Þú ert bara dæmdur af síðasta leik. Ef þú tapar með sjö mörkum þá eru Haukarnir bara betri en við, það segir sig sjálft,“ sagði svekktur Snorri Steinn Guðjónsson við Vísi í leikslok.

 

Gunnar: Mættum klárir í þetta

„Við spilum stórkostlega í kvöld, ég er bara hrikalega stoltur af strákunum. Allur pakkinn, vörnin, sóknin, markvarslan. Liðsheildin var frábær,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka í leikslok.

 

„Við mættum klárir í þetta. Við héldum skipulaginu í 60 mínútur, það er lykilinn. Og þegar við gáfum aðeins eftir varnarlega hitti Bjöggi boltana.“

 

Valsmenn komu sterkir inn í síðari hálfleikinn og náðu að minnka muninn í tvö mörk á 35. mínútu.

 

„Við vissum að þeir kæmu brjálaðir í seinni hálfleikinn. Að það kæmi áhlaup frá þeim sem við þyrftum að standa af okkur, og við gerðum það. Við misstum þetta niður í tvö mörk en við komum til baka.“

 

Þegar liðin mættust í Olís-deildinni unnu Haukar með fjórum mörkum og núna unnu þeir með sjö mörkum. Gunnar segir þú engan sérstakan galdur á bakvið árangur sinna manna gegn Val.

 

„Valur er með frábært lið. Þú þarft bara að spila vel á móti Val og við höfum bara spilað báða leikina á móti Val mjög vel. Við vitum það bara, til að vinna jafn sterkt lið og Val þarftu að eiga frábæran leik, það tókst í kvöld,“ sagði Gunnar Magnússon, sem var að vonum ánægður með sína menn í leikslok.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira