Körfubolti

Hildur: Vonandi komið til að vera

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir.
Hildur Sigurðardóttir. Vísir/Ernir
„Liðið hefur verið að spila undir getu eftir áramót. Við fundum okkur loksins almennilega og vonandi er þetta komið til að vera,“ sagði Hildur Sigurðardóttir, þjálfari Breiðabliks, eftir frækinn sigur liðsins á Val 81-70, einu af toppliðum Dominos deild kvenna í körfubolta.

Breiðablik sat fyrir leik í næst neðsta sæti deildarinnar eftir ömurlegt gengi á árinu 2018 en Valur var og er í 2. sæti.

„Við höfum verið að vinna okkur aftur inn í leiki. Höfum lagt áherslu á að brotna ekki niður þó við lendum undir. Við erum alltaf að reyna að bæta okkar leik,“ sagði Hildur og segir að undanfarnar vikur hafi verið liðinu erfiðar.

„Auðvitað er stemmningsleysi þegar illa gengur. Þegar við getum ekki gefið boltann og dribblum bara út í horn. En núna erum við vonandi búnar að finna lausn á því,“ sagði Hildur og bætti við að þetta væri skemmtilegur hópur og því væri húmor og gleðin aldrei langt undan.

„Þetta eru hressar og skemmtilegar stelpur og eru fljótar að detta í gírinn. Þær eru örugglega að syngja inn í klefa núna,“ og það skal engan undra eftir jafn frábæran sigur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×