Sport

Fal­legasta „ástar­saga“ Ólympíu­leikanna skilaði heims­meti og gulli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Svakalegur dans hjá þeim kanadísku.
Svakalegur dans hjá þeim kanadísku. vísir/getty
Kandaríska skautadansparið Tessa Virtue og Scott Moir báru sigur úr býtum í ísdansi para með frjálsri aðferð á Vetrarólympíuleikunum í PyeungChang í Suður-Kóreu í gærkvöldi en skautadans þeirra skilaði heimsmeti.

Parið fékk 206,06 stig í einkunn fyrir ótrúlega frammistöðu sína í gær og heimsmetið skilaði sigri. Þetta er annað ólympíugull Moir og Virtue.

Dans þeirra setti internetið á hliðina og trúði fólk sem ekki vissi betur að þau væru hreinlega ekki ástfanginn eða gift. Einn netverji gekk svo langt að breyta Wikipedia-síðu Moir þar sem fullyrt var að þau ætluðu að gifta sig í sumar.

Leikarinn og ofurstjarnan Ryan Reynolds, best þekktur fyrir Deadpool-myndirnar í dag, var einn þeirra sem horfði en hann réði sér ekki fyrir kæti. Hann sagði þjálfara þeirra vera algjöra goðsögn og þakkaði svo parinu fyrir að taka að sér að ala upp börnin sín. Alltaf stutt í grínið hjá kanadíska leikaranum.

Moir og Virtue unnu gull á Vetrarólympíuleikunum í Vancouver árið 2010 en þurftu svo að sætta sig við silfrið í Sochi fyrir fjórum árum. Það fór illa í parið sem hætti að dansa saman í tvö ár en sneri aftur með annan þjálfara fyrir tveimur árum og sú vegferð endaði með gullinu í gær.

Þessir ótrúlegu íþróttamenn hafa nú á glæstum ferli unnið tvenn ólympíugull, þrjá heimsmeistaratitla og átta sinnum orðið kanadískir meistarar.

Þennan sigurdans Tessu Virtue og Scotts Moir sem snerti við heimsbyggðinni má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×