Búist er við því að danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen verði yfirheyrður í dómsal í dag. Réttarhöld yfir Madsen hófust í dag en hann er sakaður um að hafa myrt sænsku blaðakonuna Kim Wall um borð í kafbáti sínum í ágúst síðastliðnum. Sundurlimað lík blaðakonunnar fannst nokkrum dögum síðar.
Madsen hefur viðurkennt að hafa sundurlimað lík blaðakonunnar, sem var þrítug þegar hún lést, en neitar því að hafa myrt hana og segir hana hafa látist eftir að hafa fengið lúgu í höfuðið. Hann er þar að auki ákærður fyrir kynferðisbrot, að vanvirða lík og að brjóta öryggisreglur siglinga. Búist er við að 37 vitni verði leidd fyrir réttinn. Saksóknarinn mun krefjast lífstíðarfangelsis yfir Madsen, sem mun líklega þýða 15 til 17 ára fangelsisvist, en hvað verjandi hans mun gera kemur væntanlega í ljós síðar í dag.
Hægt er að fylgjast með beinni lýsingu Vísis frá réttarhöldunum hér.

Málið hefur vakið heimsathygli
Mál Madsens vakti heimsathygli og skal því engan undra að um 125 fjölmiðlamenn frá 15 löndum verði viðstaddir réttarhöldin. Aðeins tuttugu þeirra fá þó pláss í sjálfum réttarsalnum, hinir 105 þurfa að láta sér nægja að fylgjast með í hliðarherbergi.
Búist er við því að réttarhöldin standi yfir í tólf daga og að dómur liggi fyrir 25. apríl næstkomandi.
Ætla að sanna að hann hafi myrt hana
Það sem komið hefur fram dómsal í morgun er að Peter Madsen hefur ekki rætt við lögreglu síðan í október í fyrra. Saksóknarar hafa í morgun farið yfir í smáatriðum hvernig þeir ætla að sanna að Madsen hafi myrt Kim Wall að yfirlögðu ráði. Sagði saksóknarinn Jakob Buch-Jensen, að ýmislegt bendi til þess að Wall hafi verið bundin um borð í kafbátnum. Hann sýnir myndir úr kafbátnum þar sem sjá má reipi sem bundið er við pípur í bátnum.

Hann sýndi myndir af reipisbútum sem fundust á hafsbotni. Segir hann að greining á reipisbútunum sýni að þeir komi úr sama reipinu. Þá sýnir hann einnig myndir af líkamshlutum Wall þar sem sjá má merki um að hún hafi verið bundin með reipi.
Ætlaði að gera nærmynd af Madsen
Kim Wall var mikilsvirt blaðakona sem var að vinna nærmynd af uppfinningamanninum Peter Madsen. Hann hafði boðið henni með í siglingu í 40 tonna kafbát sem hann smíðaði sjálfur eftir að hafa hópfjármagnað framkvæmdina árið 2006. Kafbátinn kallaði hann Nautilus.
Kim Wall hafði skrifað fréttir fyrir New York Times, The Guardian, Vice og South China Morning Post. Hún og Madsen höfðu mælt sér mót á Refshaleoen-bryggju í Kaupmannahöfn klukkan sjö fimmtudagskvöldið 10. ágúst síðastliðinn. Sá síðasta sem sá þau saman var maðurinn sem var farþegi skemmtiferðaskips. Hann kom auga á þau í stjórnturni kafbátsins rétt fyrir sólarlag, eða um klukkan hálf níu, sama kvöld. Wall sneri ekki aftur úr þessari sjóferð en um klukkan hálf þrjú daginn eftir tilkynnti kærasti hennar að hennar væri saknað.
Kafbáturinn sökk um klukkan hálf ellefu að morgni föstudagsins 11. ágúst en lögreglan tilkynnti þremur dögum síðar að kafbátnum hefði verið sökkt að yfirlögðu ráði. Sundurlimað lík Kim Wall fannst svo tíu dögum síðar við strönd Klydesoen, suður af Kaupmannahöfn. Líkamshlutar hennar fundust svo í plastpokum rúmum mánuði síðar í grennd við Klydesoen.
Fylgst er með framvindu mála í Vaktinni á Vísi.