Handbolti

Aron Pálmarsson tekur við fyrirliðabandinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/Ernir
Aron Pálmarsson tekur við fyrirliðabandinu í fjarveru Guðjóns Vals Sigurðssonar. Guðjón Valur fær frí í fyrsta verkefni landsliðsins undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar.

Guðmundur Guðmundsson gaf út sinn fyrsta landsliðshóp í dag eftir að hann tók aftur við karlalandsliðinu í handbolta og um leið tilkynnti þjálfarinn um nýjan fyrirliða liðsins.

Guðjón Valur Sigurðsson hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins undanfarin sex ár og að auki í nokkur skipti þar á undan þegar Ólafur Stefánsson forfallaðist. Nú er Guðjón Valur hinsvegar ekki í hópnum af fjölskylduaðstæðum.

Ólafur Stefánsson var fyrirliði íslenska landsliðsins þegar Guðmundur stýrði íslenska landsliðnu síðast á Ólympíuleikunum í London 2012 en Dagur Sigurðsson var fyrirliði Guðmundar þegar hann tók fyrst við landsliðinu árið 2001.

Nú fær Aron Pálmarsson fyrirliðabandið í Golden League æfingamótinu sem fer fram í Noregi í byrjun aprílmánaðar. Íslenska liðið mætir þær Noregi, Frakklandi og fyrrverandi lærisveinum Guðmundar í danska landsliðinu.

Það mátti heyra á Guðmundi að hann ætli sér að kalla aftur á Guðjón Val í næstu verkefnum en þá verður að koma í ljós hvort að Aron haldi fyrirliðabandinu í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×