Svokölluð „gender reveal“-samkvæmi, þar sem verðandi foreldrar gera grein fyrir kyni ófædds barns síns með ýmsum aðferðum, hafa verið áberandi um nokkurt skeið. Við þessar athafnir eru foreldrarnir sjálfir einnig að hljóta vitneskju um kyn barnsins í fyrsta skipti og hafa litirnir bleikur og blár, sem tákna eiga stelpu annars vegar og strák hins vegar, verið notaðir til að skera úr um málið í flestum tilfellum.
Kliebert-fjölskyldan, sem búsett er í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum, hélt samkvæmi af áðurnefndum meiði á dögunum. Aðferðin sem notuð var hefur vakið furðu og hneykslan netverja en í myndbandi, sem birt var á Facebook í vikunni, sést hvernig hinn verðandi faðir opnar kjaftinn á fjölskyldukrókódílnum og lætur hann bíta í vatnsmelónu. Melónan springur við átakið og í ljós kemur að kjötið hefur verið litað blátt – sem þýðir væntanlega að von sé á strák.
Einhverjir hafa lýst yfir áhyggjum yfir meðferð á krókódílnum, sem þvingaður er til að opna kjaftinn, og þá sést auk þess hvernig barn hrasar og dettur á jörðina við hlið krókódílsins.
They used this poor alligator for a gender reveal. Wish the gator would have bitten his hand...he deserved it. https://t.co/FKi4tLztIU
— Yashar Ali (@yashar) March 27, 2018