„Nýja starfið leggst vel í mig,“ segir Rannveig Brynja Sverrisdóttir, sem hefur verið ráðin í stöðu aðalvarðstjóra hjá Lögreglunni á Suðurlandi úr hópi sjö umsækjenda. Rannveig var auk þess eina konan sem sótti um starfið.
„Það gengur út á að samræma og hafa yfirsýn yfir störf almennu deildar og heyrir starfið undir yfirlögregluþjóninn, Svein Kristján Rúnarsson. Þessi aðalvarðstjórastaða með starfstöð á Selfossi er ný en frá sameiningu embættanna hefur verið aðalvarðstjóri á Höfn í Hornafirði,“ segir Rannveig.
Rannveig Brynja er fyrsta konan til að starfa í yfirstjórn lögreglunnar í umdæminu. Hún hefur 15 ára starfsreynslu hjá lögreglu, þar af 9 ár sem varðstjóri með mannaforráð.
„Ég tek við starfinu 16. maí en hef undanfarið eitt og hálft ár unnið sem rannsóknarlögreglumaður í miðlægri deild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég ólst upp á Selfossi en hef undanfarin 34 ár verið búsett á Eyrarbakka,“ bætir Rannveig Brynja við.
Þá má geta þess að hún ber út Morgunblaðið á hverjum morgni á Eyrarbakka en það hefur hún gert í 20 ár. Þá er fjölskyldan með kindur og hesta á Eyrarbakka. Eiginmaður hennar vinnur sem fangavörður á Litla Hrauni.
Eyrbekkingur nýr aðalvarðstjóri Lögreglunnar á Suðurlandi
Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
