Lífið

„Hefði ekki getað beðið um meira frá neinum“

Stefán Árni Pálsson í Lissabon skrifar
Það var vel tekið á móti Ara Ólafssyni og íslenska hópnum í gær þegar þau komu upp á hótel eftir að ljóst varð að lagið Our Choice komst ekki áfram í Eurovision. Lokakeppnin verður haldin í Lissabon á laugardagskvöldið.

„Mér líður alveg ótrúlega vel. Ég toppaði mig alltaf eftir hvern einsta flutning og ég gat ekki gert meira,“ sagði Ari Ólafsson seint í gærkvöldi þegar íslenski hópurinn kom upp á Grand Lisboa SPA hótelið í Lissabon.

Þetta er fjórða árið í röð sem Ísland kemst ekki upp úr undanriðli og í úrslit.

„Ég er ótrúlega stolt af Ara og öllu liðinu. Ég hefði ekki getað beðið um meira frá neinum. Hópurinn er ótrúlega samstilltur og ótrúlega góður saman. Það er sérstaklega mikill kærleikur í hópnum,“ segir Þórunn Erna Clausen en íslenski hópurinn fékk salinn til að taka víkingaklappið í Altice-höllinni í gær.

„Fyrst fannst mér eiginlega eins og við gætum ekki gert þetta og það væri eitthvað of vandræðalegt,“ segir Vignir Snær Vigfússon, meðlimir í bakraddarsveit Ara.

„Þetta endaði síðan bara í ótrúlega fríkuðu mómenti þar sem við vorum með huh salinn fyrir framan okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×