Ágúst er búinn að semja við sænska stórliðið sem kaupir markvörðinn frá Hafnafjarðarfélaginu en hann á eftir að gangast undir læknisskoðun áður en gengið verður endanlega frá málum, samkvæmt heimildum Vísis.
Sävehof hefur fimm sinnum orðið Svíþjóðarmeistari, síðast árið 2012 en liðið vann deildina þrjú ár í röð frá 2010-2012. Atli Ævar Ingólfsson, línumaður Selfoss, spilaði síðast með Sävehof á síðustu leiktíð áður en að hann sneri aftur heim.

Fór á EM
Ágúst Elí hefur verið mjög öflugur á tímabilinu í Olís-deildinni en frammistaða hans fyrir áramót skilaði honum sæti í EM-hópi Geirs Sveinssonar í Króatíu í byrjun árs.Hann varði 35 prósent skotanna sem að hann fékk á sig í deildarkeppninni þar sem að hann datt aðeins niður eftir EM-ævintýrið. Ágúst hefur verið frábær í undanúrslitaeinvígi FH á móti Selfossi en úrslitin í því ráðast í oddaleik á miðvikudagskvöldið.
Glugginn á Íslandsmeistaratitil hjá þessu frábæra FH-liði virðist svo sannarlega vera að lokast því Ágúst Elí er fjórði leikmaðurinn sem FH mun missa eftir tímabilið.

Þrír að fara
Fyrst var það Óðinn Þór Ríkharðsson, hornamaður, sem að samdi við danska úrvalsdeildarliðið GOG á Fjóni í desember á síðasta ári og degi síðar samdi undrabarnið Gísli Þorgeir Kristjánsson við þýska stórliðið Kiel.Morgunblaðið greindi svo frá því í síðustu viku að varnartröllið og stórskyttan Ísak Rafnsson væri í viðræðum við austurríska liðið Schwaz Handball Tirol og að góðar líkur væru á því að Ísak myndi yfirgefa FH eftir tímabilið.
Leikurinn annað kvöld í Vallaskóla á Selfossi gæti því orðið kveðjuleikur fjögurra leikmanna FH en sigur kemur því í úrslitarimmuna á móti ÍBV. Leikurinn hefst klukkan 20.00 en upphitun hefst með Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport HD klukkan 19.30.