Leikur ÍBV og FH í úrslitaeinvígi Olís deildar karla á laugardaginn var ansi tilfinningaþrunginn fyrir Agnar Smára Jónsson, leikmann ÍBV.
Tilfinningarnar báru Agnar ofurliði undir lok leiksins þegar hann brast í grát á hliðarlínunni. Arnar Pétursson, þjálfari hans, sagði í viðtali við Vísi eftir leik að Agnar myndi yfirgefa liðið eftir tímabilið.
„Aggi er einhver mesti Eyjamaður sem við finnum, hann er búinn að vera hjá okkur í 6 ár. Hann ber miklar tilfinningar til Eyjanna og Eyjarnar bera miklar tilfinningar til hans. Við erum búnir að halda því leyndu í töluverðan tíma en hann er að fara nám í Reykjavík á næsta ári og verður ekki með okkur á næsta tímabili og það truflar hann aðeins,“ sagði Arnar sem las aðeins yfir Agnari á hliðarlínunni á laugardag.
Ljóst er að fleira var einnig að angra Agnar þar sem hann sást kasta upp í hálfleik.
Eyjamenn unnu leikinn á laugardag með sex mörkum en mæta í Kaplakrika í kvöld í annan leik einvígisins. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst upphitun klukkan 19:00.

