Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í nótt ökumann sem grunaður var um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við leit á manninum fundu lögregluþjónar fíkniefni og í bíl hans fundust hnífar, rýtingar og járnkylfa. Lagt var hald á alla munina og var maðurinn látinn laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku, samkvæmt dagbók lögreglu.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt og voru alls 75 mál bókuð.
Rúður voru brotnar í þremur bílum í austurborginni í gærkvöldi en ekki er ljóst hvort einhverju hafi verið stolið úr bílunum. Málið er enn í skoðun. Þá barst lögreglunni ítrekaðar tilkynningar um ölvaðan mann í miðbænum í gærdag sem var að ógna, áreita og veitast að fólki. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Þar að auki var nokkuð um að ökumenn voru gómaðir undir áhrifum fíkniefna. Í gærkvöldi var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í Grafarvogi og var sá aðili stöðvaður í akstri skömmu síðar. Hann reyndist vera undir áhrifum fíkniefna.
Gómaður með fíkniefni, hnífa og kylfu
Samúel Karl Ólason skrifar
