Björn var klæddur í forláta Havaí-skyrtu og vakti uppátækið mikla athygli þar sem margir höfðu orð á klæðaburði Björns og skrifuðu skemmtilega um þetta fataval.
Björn var þó alveg grunlaus um athyglina. Það var ekki fyrr en hann tók rölt á kosningaskrifstofur á Ísafirði sem honum var sagt frá því að hann hefði slegið í gegn.
„Það voru margir sem vildu taka selfie af sér með mér, sem ég átti ekki von á, en ég fékk fljótt skýringar á því,“ segir Björn.
Tropical stuðkveðjur frá Ibizafirði! #kosningar #bjössi pic.twitter.com/xip7grtsz5
— Arnheiður (@arnheidur) May 27, 2018
Björn ákvað að sýna fólki að um hefði verið að ræða fremur hógværa skyrtu úr fataskáp hans. Hann skellti sér því í mun skærari skyrtu á kosninganótt. „Og hún féll ekkert síður í kramið.“
Spurður hvort að það séu einhverjar reglur um klæðaburð þegar kemur að kjörstjórn segir hann svo vera, en það sé kveðið á um snyrtilegan klæðnað.
„Að menn séu ekki í tættum klæðnaði eða mikið notuðum. Menn séu bara hreinlega snyrtilega klæddir, það er það sem er farið fram á.“
Hann tekur fram að það þurfi þó að huga vel að klæðnaði þegar atkvæði eru talin, því það getur gengið ansi mikið á.
„Það er ekki gott að vera í fatnaði sem er of heitur og þá klæðir maður sig fyrst og fremst þægilega. Ég átti ekki von á þessu og gerði mér ekki grein fyrir að svona skyrta myndi vekja svo mikla athygli. Þetta er í sjálfu sér skemmtilegt atvik,“ segir Björn.
íbísafjörður sá vinsælasti kominn í sparigallann #kosningar #x18 pic.twitter.com/kWCTZ1AxHH
— Herra Matthildur (@HrMatthildur) May 27, 2018
Hann segist kaupa skyrturnar á ferðalögum sínum erlendis. Hann hefur keypt þær til dæmis í Kanada og á Jamaíka og sá gríðarlegt úrval af þessum skyrtum í Japan en átti erfitt með að finna stærð sem passaði á hann þar því Japanir séu smærri í smíðum en hann.
„Ég hef átt svona skyrtur hátt í tuttugu ár. Ég geng ekki í þeim dags daglega, í vinnu eða slíku, en ég nota þær samt sem áður töluvert,“ segir Björn.
Hann á allt eins von á því að vera áfram í kjörstjórn í næstu kosningum og þá verður samskonar skyrta fyrir valinu.
Fyrstu tölur frá Flórída. #kosningar18 pic.twitter.com/GhDJvilVFh
— Davíð Þorláksson (@davidthorlaks) May 26, 2018